Vestanpósturinn á leiðinni og breytingar

Vestanpósturinn kemur nú út á öðrum tíma en verið hefur, þ.e. í kjölfar Sólarkaffis frekar en í aðdraganda – og kannski ekki síður í aðdraganda páska og vorkomu. Ýmsar ástæður liggja að baki þeirrar ákvörðunar stjórnar félagsins að breyta útgáfutímanum, en þær helstu eru þessar:
✓ að þar með er hægt að birta fyrr en gert hefur verið til þessa myndir og frásögn af Sólarkaffi ársins,
✓ að félagsgjöld, sem innheimt eru með Vestanpóstinum, komi ekki til félagsmanna strax í janúar, í sama mánuði og Sólarkaffi er haldið,
✓ og að blaðið geti frekar höfðað til auglýsenda fyrir vestan í upphafi ferðamannatíðar.

Augljós galli er þó sá að fyrsta blaðið á þessum útgáfutíma verður í raun tvöfalt hvað varðar minningarbrot frá Sólarkaffi og myndir og frásögn frá Sólarkaffi 2008 farin að rykfalla ögn meira en verið hefði með gamla útgáfutímanum. Það er mín trú að til lengri tíma litið sé þessi útgáfutími heppilegri og mætir vonandi skilnings félagsmanna sem hafa þurft að bíða nokkuð lengur eftir þessum Vestanpósti en áður. En biðin er á enda. Þetta blað er fullt af efni úr starfi félagsins, sérstaklega frá hinum hefðbundnu viðburðum, líkt og sólarkaffi, sólkveðjukaffi og messu. Breytingar í starfi félgsins hafa hvorki verið miklar né gerst hratt – en þó verið nokkrar. Þegar hefur breyttur útgáfutími blaðsins verið nefndur. Önnur, ekki síður mikil breyting, var sú að sólarkaffið í ár var nú haldið á nýjum stað. Því er gerð frekari grein í blaðinu, en almennt virðist sem ánægja hafi verið með staðarval og kannski ekki síður með veitingarnar.

Í sumar sem leið var haldið sérstakt golfmót á Ísafirði í tengslum við afmælismót Golfklúbbs Ísafjaðar, þ.e. golfmót brottfluttra Ísfirðinga er öttu kappi við heimamenn. Mótið var haldið í samvinnu Ísfirðingafélgsins og Golfklúbbsins og tóks með miklum ágætum. Væntingar standa til að halda mót sem þetta annað hvert ár. Þá var á síðasta ári haldin skíðamynjasýning í Sóltúnum um páskana, í tengslum við Skíðavikuna. Í ár verður einnig höfð dagskrá á vegum félagsins í Sóltúnum í tengslum við Skíðavikuna.

Síðast en ekki síst, skal nefna að opnaður hefur verið nýr og glæsilegur vefur Ísfirðingafélagsins, á slóðinni www.isfirdingafelagid.is Allt það sem að ofan er talið er til frekari umfjöllunar hér í blaðinu, til viðbótar við stórskemmtilegt viðtali Harðar Kristjánssonar við Gústaf Óskarsson, kennara, minningarbrotum, frásögnum og kveðskap. Blaðið í ár er sem svo oft áður, samansett með sjálfboðavinnu margra. Öllum þeim sem lögðu blaðinu til efni eru færðar hugheilar þakkir. Að endingu: þó ýmislegt breytist frá ári til árs, er ljóst að grunnurinn í starfi Ísfirðingafélagsins hefur verið og verður áfram sá og hinn sami. Grunnurinn er að mínu mati sá að halda tengslunum í þessum hópi okkar sem félagið er, þessum hópi sem á það sameiginlegt að bera hag litla samfélagsins sem kúrir í faðmi fjalla blárra heima í Skutulsfirði fyrir brjósti. Hópur félgasmanna þarf að stækka. Í vetur hefur verið gert átak í því að hringja í fólk og hvetja það til að ganga í félagið með þeim hvatningarorðum að fólk eigi að styðja félagið og markmið þess, frekar en spyrja hvað félagið geri fyrir sig.
Vonandi fáum við enn fleiri félaga í ár, sem tilbúinir eru til að vera með á þessum nótum.

Vestanpósturinn óksar lesendum- sínum gleðilegra páska og vonast til að sjá sem flesta heima á Ísafirði á Skíðavikunni!

Jakob Falur Garðarsson

30.3.2009 -


Varðveitum upprunann

Við erum og verðum alltaf ísfirðingar!



 

Skráðu þig á póstlistann



Könnun