Sólarkaffi í ár byrjaði sannarlega vel. Ilminn af pönnukökubakstri lagði um ganga Hilton Hótels Nordica við Suðurlandsbrautina. Sólarkaffið var að þessu sinni haldið á nýjum stað og örlaði fyrir vissum spenningi, ekki síst fyrir því hvernig til myndi takast með pönnukökurnar – en kokkarnir á Hilton voru búnir að tala um þetta verkefni af tilhlökkun og ákveðnir í að vera með pönnukökubakstur á staðnum. Skemmst er frá því að segja, að pönnukökurnar í ár voru sérlega ljúffengar, sem og aðrar veitingar, og veitingamönnum Nordica til sóma.
Snillingarnir og hljóðfæraleikararnir, Halldór S. og vonarneistarnir komu að heiman til að spila dinnertónlist fyrri hluta kvölds og eins til að vera með tónlistaratriði og stóðu svo sannarlega undir væntingum – og gott betur en það.
Ekki er hægt að segja að ræðumaður kvöldsins hafi verið steyptur í svipað mót og forverar hans, og skal honum sagt til hróss og sérstaklega haldið hér til haga, að það þarf sannarlega kjark til að taka að sér að tala sem ræðumaður kvöldins á sólarkaffi – verandi hvorki innfæddur né uppalinn á Ísafirði. En dr. Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða, eftir stuttan umhugsunartíma, féllst á að koma og tala um litla samfélagið hvar er hans heima í dag, að tala um Ísafjörð með hugarfari hins aðflutta, að horfa heim með glöggu gests auga. Og sjónarhorn Peters náði svo sannarlega til veislugesta, því pælingar líkt og hvað er upp og niður, Hæðstikaupstaður, Neðstikaupstaður, snertu heldur betur streng í huga og kveiktu í hláturtaugum. Ræða Peters er birt í heild sinni hér fyrir aftan, ásamt fjölda ljósmynda frá sólarkaffi 2009.
Veislustjóri kvöldins var Fjarðarstrætispúkinn Halldór Jónsson og fór hann á kostum – nokkuð sem kom kannski ekki svo mjög á óvart.
Öllum sem lögðu hönd á plóg við undirbúning og framkvæmd Sólarkaffis eru færðar góðar þakkir.
Myndir frá sólarkaffinu er finna fleiri en eina og fleiri en tvær í myndagalleríiunu hér á vefnum. Ræða dr. Peters Weiss er birt hér á eftir sem næsta "frétt".