Í
Morgunblaðinu í dag er skemmtilegt viðtal Önundar Páls Ragnarssonar,
blaðamanns, við Ólaf Sigurðsson, stjórnarmann í Ísfirðingafélaginu, sem
er prímus mótor skíðaminjasýningar í Edinborgarhúsinu heima á Ísafirði
nú um páskana. Við hér á vef Ísfirðingafélagsins tökum okkur það
bessaleyfi að birta viðtalið úr Mogga hér í heild sinni um leið og við
hvetjum sem flesta til að líta við í Edinborgarhúsinu á þessa frábæru
sýningu.
SKÍÐAMINJASÝNING hefur verið sett upp í Edinborgarhúsinu á Ísafirði á
vegum Ísfirðingafélagsins, átthagafélags Ísfirðinga. »Við erum að minna
á það gríðarlega safn muna sem byggðasafn Vestfjarða á en hefur ekki
verið fundinn staður,« segir Ólafur Sigurðsson sem er í forsvari fyrir
félagið.
Hugmyndir eru uppi um að koma endanlega upp skíðaminjasafni í
Skíðheimum. Það er gamall skíðaskáli á Seljalandsmúla sem ekki er í
notkun sem stendur, en þau áform eru ekki enn komin á framkvæmdastig.
»Við erum líka að sýna teikningar af því hvernig við viljum breyta
skálanum í minjasafn og lítinn veislusal.
Elstu skíðin um hundrað ára
Við erum með um þrjátíu og fimm valin skíði til sýnis, þau elstu
líklega um hundrað ára gömul,« segir Ólafur, en alls á byggðasafnið vel
yfir 200 muni sem tengjast skíðaiðkun. Aðallega skíði en einnig
töluvert af skíðastöfum og skíðaskóm frá mismunandi tímum tuttugustu
aldarinnar. Nýlega bættust grænlensk skíði í safnið, sem eru með leifum
af selskinni á neðra byrðinu, en oft var selskinn notað til að auka
grip á skíðum þegar gengið var á jöklum eða harðfenni. Upphafsmennirnir
að þessari umhyggjusemi um skíðabúnaðinn eru Jón Páll Halldórsson og
Oddur Pétursson, en Jón Páll var lengi stjórnarmaður í byggðasafninu.
Mununum hefur verið safnað í hartnær 20 ár og hefur hluti þeirra áður
verið til sýnis í tengslum við skíðavikur fyrri ára, en í þetta skiptið
er sýningin líka hluti af lokaverkefni Rakelar Sævarsdóttur í
meistaranámi í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands.
»Þetta er ekki síst liður í því að vinna með heimamönnum í því að gera
eitthvað sem hvetur brottflutta til að koma og skoða menningarsögu
heimaslóðanna,« segir Ólafur.