Ísafjörður meira spennandi en Gullfoss, Geysir og Bláa Lónið

Ísafjörður er í öðru sæti yfir mest spennandi áfangastaði landsins í nýjustu útgáfu vinsælustu ferðahandbókar heims, Lonely Planet. Listi handbókarinnar yfir „Top Picks“ setur Ísafjörð í annað sætið og skýtur þar með perlum eins og Gullfoss, Geysi, Bláa Lóninu og Mývatni ref fyrir rass. Í fyrsta sæti er Jökulsárþjóðgarður.

Bæjarins Besta skýrir frá þessu. Á lista Lonely Planet er sagt að Ísafjörður sé afviknasti bær landsins í stórkostlegu umhverfi í hinum stórbrotnu Vestfjörðum. Það er greinilegt að höfundum bókarinnar hefur ekki leiðst Vestfjarðardvölin. Annar aðalhöfunda bókarinnar, Etain O’Carrol, setur einmitt ferð um Vestfirði sem sína uppáhalds ferð um Ísland. Nefnir hún að þar sem samgöngur geri ferðamönnum oft erfitt um vik að ferðast um svæðið, þrauki fáir alla leið, og þess vegna sé það svona sérstakt. Hún segir til dæmis að dýralífið við Látrabjarg sé engu líkt sem og að aksturinn að og upplifunin við Dynjanda sé mögnuð.

Aksturinn yfir heiðar Vestfjarða sé líkt því að vera komin á tunglið en það sé þess virði þegar komið sé til stórborgar smábæjarins Ísafjarðar. Þaðan sé einnig hægt að komast að Hornströndum sem fangaði huga hennar með fallegu landslagi, himinháum fuglabjörgum og krefjandi gönguleiðum. Vestfirðir með oddhvössu fjöllin og villtu klettana eru, að hennar sögn, líkt og að komast á heimsenda.

24.6.2009 -


Varðveitum upprunann

Við erum og verðum alltaf ísfirðingar!



 

Skráðu þig á póstlistann



Könnun